Geturðu séð sjálfan/n þig vinna á bóndabæ á Danmörku, hóteli í Noregi eða í skemmtigarði í Finnlandi? Með hjálp Nordjobb getur þú sótt um árstíðabundið starf hvar sem er á Norðurlöndunum.
Nordjobb er bæði dýrmæt starfsreynsla og leið til að kynnast einu af nágrannalöndum þínum. Með því að taka þátt í Nordjobb færð þú að upplifa hvernig það er að búa í öðru norrænu landi og á sama tíma kynnast öðrum Nordjobb þátttakendum og eignast nýja vini frá öllum kimum Norðurlandanna.
Tilgangur Nordjobb
Nordjobb vinnur að því að auka hreyfanleika á norræna vinnumarkaðnum og að auka þekkingu á tungumálum og menningu á Norðurlöndunum. Frá 1985 höfum við veitt um það bil 29.000 ungmennum á aldrinum 18-30 ára tækifæri til að upplifa norrænt land yfir sumarmánuðina. Með því að taka þátt í Nordjobb leggja bæði þátttakendur og vinnuveitendur sitt af mörkum til að auka hreyfanleika yfir landamæri Norðurlandanna.